TOUR DE GUDENÅ 13-14 september 2008

Það voru 771 bátar sem tóku þátt í keppninni í ár en 687 náðu að klára. Spánverjinn  Federico Vega Suarez sigraði 120 km á einmenningsbát á tímanum 8:21,11. Keppnisleiðin er um ár, skurði og vötn en endar í Randers.  Það er því auðvelt fyrir áhorfendur að fylgjast með m.a. á stöðum þar sem þarf að bera bátana. Flestir bátar hjá þátttakendum eru keppnisbátar fyrir slétt vatn og væru býsna erfiðir í öldu út á sjó. Lýsingin hjá Peter Unold  á þátttöku hans á tveggjamannabát er ansi skemmtileg.

Met sett í róðri og sundi yfir Ermasundið

Ian Wynne bætti metið í róðri yfir Ermasundið 5 október 2007. Hann réri 33 km á  2:59:06 og bætti gamla metið 3 klst, 21 mínúta, og 54 sekúndur sem Ian Tordoff átti. Það er ótrúlegur hraði sem þarf að halda til að ná þessum tíma en vegna strauma og vinda verður leiðin alltaf lengri en loftlínan. Hraði  Wynne mældist frá 10,5 - 11,6 km/klst sem er magnað miðað við 3 klst róður.  Það er hins vegar varla hægt að bera árangur þessara tveggja saman því Wynne réri á surfski en Tordoff á lokuðum kayak, Rapier 20 frá Valley af léttustu gerð. Á Íslandi eru til nokkrir kayakar af þessari gerð en hins vegar ekkert surfski sem eru að mörgu leiti áhugaverð tæki.

Petar Stoychev  frá Bulgaríu á metið í að synda þessa leið en hann synti hana árið 2007 á 06:57.50. Það eitt að komast þessa leið syndandi er afrek en að synda 33 km undir 7 klst er magnað, þó hefur Alison Streeter synt hana 43 sinnum og elsti maðurinn sem synt hefur Ermasundið er George Brunstad sem var 70 ára og 4 daga þegar hann synti sundið á 15:59 árið 2004!! 


Pax 20 Smíðaður

pax á fiestu

Eftir um 100 klst vinnu var Pax-20 tilbúinn. Ég keypti hann sem kitti frá CLC fyrirtækinu. Báturinn er 50 cm breiður og 6 metra langur eins og sést á myndinni.


Nýr bátur í flotann - Nelo Viper 51

Eftir að siglingastofnun hafði farið yfir innflutningsskjöl með stimplun um að báturinn geti ekki sokkið  fékk tollurinn sitt og ég bátinn. Báturinn er flokkaður sem vetraræfingabátur eða keppnisbátur fyrir eldri og yngri.  Eins og nafnið gefur til kynna er hann 51 cm á breydd, 5,2 m á lengd, 12 kg og framleiddur af Nelo í Portugal. Þessi bátur er sniðinn af keppnisreglum sem danska kayaksambandið hefur sett sem öryggisreglur um svo kallaða "tur" báta. Báturinn er keyptur í gegnum Nelo í Noregi sem rekið er af ekki ófrægari manni en Eric Veras Larsen. Larsen hefur unnið sér það til frægðar að vinna gull á ólympíuleikum og núna síðast silfur í kína. Hann er sterkastur í 1000m á sléttu vatni.  Báturinn er með fótstigi og T-stýri þannig að spyrnan frá fótum nýtist til fullnustu við róðurinn. Mannopið er stórt þannig að fætur hafa nægt rými fyrir róðurinn.  Í fyrsta róðri á bátnum náði ég auðveldlega að halda 11+ km/klst en það breyttist reyndar fljótt þegar fór að blása lítillega og litlar öldur trufluðu mig. Stillingin á sæti er mjög auðveld og ekki þarf að breyta petulum þó að stærri eða minni aðili prófi bátinn. Það sem mætti vera betra í bátnum er stýrið sjálft sem er undir honum en mér finnst það vera of lítið. Ég þarf líklega einhvern tíma til að venjast bátnum fullkomlega en ég er sáttur við hraðann.

Hvammsvíkurmaraþoni lokið - keppnissagan

Laugardaginn 6 ágúst var hið árlega Hvammsvíkurmaraþon haldið í tíunda sinn. Ræst var klukkan 10 frá aðstöðu kayakklubbsins frá Geldinganesi. 8 keppendur lögðu af stað en keppnin er ætluð ræðurum með undirstöðuatriði á hreinu. Veðurspáin var góð og tími dags hentaði vel með tilliti til strauma. Fyrsti hluti af fyrsta legg byrjaði vel og voru menn í tiltölulega jöfnum hóp, var róið með straumi með vind á hlið sem var örlítil breyting miðað við spá. Við Kjalarnesið bættist við töluverð alda utan af hafi þannig að aðstæður voru með erfiðara móti. Hraðinn minnkaði og sjóveiki fór að trufla undirritaðan. Að auki var nánast ógerlegt að neyta drykkjar við þessar aðstæður sem átti eftir að koma niður á mér síðar. Við kjalarnes eru bæði sker og eyjur og voru menn misdjarfir að fara á milli þeirra í öldurótinu en þeir allra djörfustu náðu að stytta leiðina og spara sér tíma. Fyrsta 5 mínútu stopp var við svínabúið við Brautarholt, á öðrum legg tók við betra öldulag og lens inn Hvalfjörðinn að eyðinu á móti Grundartanga. Hjá mér hófust vandræðin fyrir alvöru þarna því sinadrættir um allan skrokk voru að hrjá mig. Á tímabili var ég kominn í 3 sæti eftir að hafa leitt allan fyrsta legginn. Með aðstoð frá Örlyg félaga mínum gat ég drukkið meira og skakklappast á eftir honum í annað stopp. Síðasti leggur var með sléttum sjó en menn voru orðnir vel þreyttir þegar þeir kláruðu. Þrátt fyrir öll vandræðin var þetta hin besta skemmtun og sigurinn fólst í því að yfirstíga vandræðin og bæta persónulegan árangur frá því í fyrra.

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband