Hvammsvíkurmaraþoni lokið - keppnissagan

Laugardaginn 6 ágúst var hið árlega Hvammsvíkurmaraþon haldið í tíunda sinn. Ræst var klukkan 10 frá aðstöðu kayakklubbsins frá Geldinganesi. 8 keppendur lögðu af stað en keppnin er ætluð ræðurum með undirstöðuatriði á hreinu. Veðurspáin var góð og tími dags hentaði vel með tilliti til strauma. Fyrsti hluti af fyrsta legg byrjaði vel og voru menn í tiltölulega jöfnum hóp, var róið með straumi með vind á hlið sem var örlítil breyting miðað við spá. Við Kjalarnesið bættist við töluverð alda utan af hafi þannig að aðstæður voru með erfiðara móti. Hraðinn minnkaði og sjóveiki fór að trufla undirritaðan. Að auki var nánast ógerlegt að neyta drykkjar við þessar aðstæður sem átti eftir að koma niður á mér síðar. Við kjalarnes eru bæði sker og eyjur og voru menn misdjarfir að fara á milli þeirra í öldurótinu en þeir allra djörfustu náðu að stytta leiðina og spara sér tíma. Fyrsta 5 mínútu stopp var við svínabúið við Brautarholt, á öðrum legg tók við betra öldulag og lens inn Hvalfjörðinn að eyðinu á móti Grundartanga. Hjá mér hófust vandræðin fyrir alvöru þarna því sinadrættir um allan skrokk voru að hrjá mig. Á tímabili var ég kominn í 3 sæti eftir að hafa leitt allan fyrsta legginn. Með aðstoð frá Örlyg félaga mínum gat ég drukkið meira og skakklappast á eftir honum í annað stopp. Síðasti leggur var með sléttum sjó en menn voru orðnir vel þreyttir þegar þeir kláruðu. Þrátt fyrir öll vandræðin var þetta hin besta skemmtun og sigurinn fólst í því að yfirstíga vandræðin og bæta persónulegan árangur frá því í fyrra.

Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband