Keppni á Reykjanesi 21 maí 2011

Ég gerði mér grein fyrir því um helgina hvað það hefur verið mikið mál fyrir vestfirðinga að koma bátum sínum á keppnisstað hér fyrir sunnan í gegnum tíðina. Þorskafjarðarheiði var ófær, -4 gráður á Steingrímsfjarðarheiði ásamt skafrenning og svipað á Arnkötludalsheiði. Hviður voru 24 ms og það tók hressilega í bátinn á bílnum og alveg ljóst frá upphafi að ekki var hægt að koma með keppnisbátana mína vestur. Eftir 5 klst keyrslu náði ég í Reykjanes eftir að hafa keyrt löturhægt á köflum. Á föstudagskvöld var -1 gráða og rok í djúpinu en þrátt fyrir það höfðu menn verið að róa í röstinni undan brúnni við Reykjafjörðinn. Rétt eftir komu mína rann í hlað trukkur með 60 feta gámi sem innihélt 28 nýja Tahe báta sem vestfirðingar höfðu verið að panta sér og ekki leiðinlegt að fá að verða vitni að því þegar menn opnuðu pakkningarnar utan af þeim eins og börn á aðfangadagskvöld. Þessir bátar eru hreint ótrúlega vel smíðaðir og með snilldar hönnun frá Svíþjóð. Einn báturinn er kevlar Baidarka bátur, alger snilld og verða myndir af þeim settir hér inn síðar. Ákveðið var að keppnin yrði ekki umhverfis Borgarey vegna veðurs og færð inn í Reykjafjörð í staðinn. Brautin var 7 km löng og var ég sæmilega sáttur við hraðann sem ég náði á Spirit, 10,6 km/klst eða 40 mín. Róið var inn fjörðinn undan vind og straum og svo móti strekkings vindi um 2 km til baka að enda flugbrautar. Næstu 4 menn réru allir á Inuk bátum með Dóra í farabroddi. Þó þátttaka hafi ekki verið mikil í vorhitting þá var gaman að sjá að keppendur voru fleiri en verið hefur í vestfjarðakeppninni og því er þetta gott fyrirkomulag að mínu mati. Ekki tók betra við á Steingrímsfjarðarheiði til baka, bílar útaf vegi í brjáluðum skafrenning þannig að ekki sáust nema tvær stikur á köflum. Það má því segja að veðrið hafi sett mark sitt á þessa helgi ásamt eldgosi í Vatnajökli.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband